Strikamerki

Ef þú vilt strikamerkja vöruna þína þá er að ýmsu að huga.  Það eru til ógrynni af mismunandi strikamerkjastöðlum sem hægt er að nota.  Í raun má líkja þessu við mörg mismunandi tungumál.  Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að strikamerkjaskannarnir kunna alla strikamerkjastaðlana og yfirleitt þarf ekki að stilla þá sérstaklega fyrir einhvern strikamerkjastaðal.

Ef þú vilt strikamerkja vöru fyrir sjálfan þig eða selur eingöngu úr þinni eigin verslun þá geturðu valið um hvaða strikamerkjastaðal sem er.  Þú gætir t.d. valið strikamerkjastaðalinn Code39 og haft strikamerkið með eins mörgum stöfum og þú vilt, eina skilyrðið er að það byrji og endi á „*“.

Ef þú ert hins vegar að fara að selja vöru í smásölu þá þarftu að notast við EAN13 staðalinn.  Það sem meira er þá þarftu að sækja um strikamerki hjá GS1 samtökunum.  Þeir sjá um að úthluta strikamerkjum þannig að hægt sé að rekja vöru útfrá strikamerki til framleiðanda.  Þú greiðir síðan eftir því hvað þú kaupir mörg strikamerki.  Til að flækja þetta aðeins þá er hægt að vera með stykkjavörustrikamerki og vigtarvörustrikamerki.  Í vigtarvörustrikamerki getur síðan komið fram annað hvort þyngd eða verð.  GS1 á Íslandi geta aðstoðað þig við kaup á EAN13 strikamerkjum.

Þú getur kynnt þér allt um EAN13 strikamerki á heimasíðu GS1.